Artasan kaupir Mat og pökkun

Artasan ehf. hefur keypt allt hlutafé Matar og pökkunar ehf. og hefur Samkeppniseftirlitið þegar samþykkt kaupin. Matur og pökkun ehf. var stofnað árið 2016 og er í eigu Þorkels Traustasonar og Sæþórs Matthíassonar.

Í tilkynningu frá Artasan segir að markmið kaupanna sé að auka breidd í vöruúrvali og styrkja stöðu Artasan á dagvörumarkaði. Ráðgjafar Matar og pökkunar við söluna var Kontakt.

Artasan annast innflutning, skráningu, markaðssetningu og heildsölu á samheitalyfjum, lausasölulyfjum, heilsuvörum og neytendavörum. Félagið selur svo vörur til apóteka, sjúkrahúsa, dagvöruverslana, barnabúða og bensínstöðva. Fyrirtækið er í 100% eigu Veritas ehf. og nam velta Artasan 3.387 milljónum árið 2022.

„Með kaupum á Mat og pökkun erum við að styrkja stöðu okkar á dagvörumarkaði til muna. Þekking og reynsla Matar og pökkunar á dagvörumarkaði mun nýtast vel við frekari uppbyggingu á starfsemi Artasan,“ segir Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan.

Matur og pökkun sérhæfir sig í innflutningi og dreifingu á ýmsum matvörum, einkum sælgæti, kexi, þurrkuðum ávöxtum og hnetum. Helstu viðskiptavinir félagsins eru dagvöruverslanir. Samkvæmt uppgjöri nam velta félagsins 432 milljónum króna árið 2022 og jókst þar með um 20% frá árinu þar á undan.

„Við erum spenntir fyrir því að ganga til liðs við Artasan og sjáum þar mikil tækifæri sem partur af stærri og sterkari heild,“ segja Þorkell Traustason og Sæþór Matthíasson eigendur Matar og pökkunar.

kontakt@kontakt.is | 414 1200 |Ránargata 18, 101 Reykjavík © 2020. Lausn frá Kaktus.